Hnúðkál er frekar litlaust fyrirbæri en það er gott hrátt dýft í góða tamarind sósu og það er himneskt bakað í ofni. Mér finnst fallegast að skera það í stöngla. Þegar skorið er þá má hugsa um svolítið þybbnar franskar. Sett í ofnfast mót, ólífuolía sett yfir og síðan inn í ofn við 180 gráður. Þegar hnúðkálið er farið að taka lit þá er það tekið út og grófu salti stráð yfir og borið fram með piparmyntupestói.
Forréttur fyrir fjóra:
Eitt hnúðkál
Nokkrar matskeiðar af ólífuolíu
Salt
Borðið fram með piparmyntupestói:
Góð lófafylli af piparmyntulaufum, tekin af stönglinum og rifin (eða skorin, má alveg)
Lófafylli af pístatsíuhnetum, settar í mortel og muldar en mjög gróft
Ein matskeið af rifnum parmesan
Rifið hýði af einni lífrænni sítrónu
Þrjár matskeiðar af góðri ólífuolíu (meira ef þarf þetta á að vera svona gróft mauk)
Nýmalaður pipar yfir
Þetta er uppáhaldsforréttur Nautnabelgs um þessar mundir!