- Lífið er of stutt fyrir vondan mat

Hollensk sósa

Hollensk sósa

Hef undanfarið (já ketó) oft búið til hollenska sósu eftir alls konar uppskriftum sem ég hef fundið á netinu. Þær hafa bara ekki verið nægilega góðar og allt í einu mundi ég eftir gömlu vinkonu minni henni Juliu Child. Það er mér ógleymanleg stund þegar ég sá hana í fyrsta sinn á Public television í Boston í svart hvítu. Var að tala um þetta við manninn minn en hann hafði enga trú á því að þættirnir hefðu verið í sauðalitunum. Fór á netið (ekki hægt að þrátta um neitt lengur) og viti menn þeir eru í svart hvítu og hafa ekki misst neitt af sjarma sínum. Röggsamari manneskju en Juliu Child hafði ég aldrei augum barið, hún eldaði óendanlega spennandi mat og reyndar held ég líka að þetta hafi verið fyrsti matreiðsluþátturinn sem ég sá um ævina. Já, breyttir tímar.

Að hollensku sósunni….Julia er með bestu uppskriftina, og eiginlega þá einföldustu, af hollenskri sósu og ég hef tekið hana og aðlagað aðeins minni boðum en hún var víst vön að halda og sniðið hana að evrópsku mælingarkerfi.

Þetta er sósa fyrir tvo til þrjá

150 gr smjör

1 eggjarauða

1 1/2 tsk salt

1/4 tsk hvítur pipar

1 tsk vatn

2 tsk sítrónusafi

smjörklípa

 

Það er best að byrja á því að taka út eggið eða eggin ef þið gerið stærri uppskrift

Smjörið er brætt í litlum potti og sett til hliðar.

Takið til góðan pott og hrærið eggjarauðina í honum svona aðeins til að láta hana vita á hverju hún á von, setjið pottin svo yfir lágan hita og bætið við sítrónusafa og vatni. Hrærið þar til að blandan þykknar. Það má ekki líta af þessu og það þarf að hræra stöðugt því eggin mega ekki hlaupa. Það er ágætt að hafa til hliðar skál með köldu vatni sem er hægt að setja pottinn ofan í ef hann fer að hitna of mikið en mér finnst bara best að taka hann af hellunni ef hann verður of heitur og þess vegna getur verið þægilegt að nota skaftpott. Þegar blandan þykknar og það fer aðeins að rjúka úr henni og það sést í botninn milli stroka þá er potturinn tekinn af og kölda smjörklípan sett út í. Síðan er brædda smjörinu bætt við. Fyrst bara nokkrum dropum í einu og svo aðeins meira og hrært í stöðugt á meðan. Í lokin er piprað og saltað og þá á hún að vera tilbúin en auðvitað þarf að smakka hana til. Það er hefð að nota hvítan pipar í þessa sósu en Nautnabelgur brýtur oft hefðir.