- Lífið er of stutt fyrir vondan mat

Hægeldaðir lambaskankar

Hægeldaðir lambaskankar

Lambaskankar eru frábært hráefni í ljúffengan laugardagsmat um haust eða vetur. Aðalmálið hér er að gefa sér tíma, þetta er ekki réttur til að elda á hlaupum eftir vinnu á virkum degi. Nýtið frekar helgar eða frídaga og njótið þess að dútla í eldhúsinu frá hádegi og finna kryddilminn leggja undir sig húsið smátt og smátt, fá sér fordrykk og vera pínu rómó. Ást, rómatík og almenn væntumþykja þrífst best í góðum matarilm.

Aðferð

Byrjið á að skera lauk, gulrætur og hvítlauk niður, þarf ekki að vera fínskorið í þessum rétti. Ristið kóríanderfræin á pönnu í smástund og myljið svo í mortelinu ykkar, setjið til hliðar.

Næst er það kjötið, ein regla (eða skoðun Nautnabelgs) með allt kjöt sem er almennilegt er að leyfa því að ná stofuhita áður en það er eldað, jafnvel nudda það smávegis með olívuolíu og leyfa því að hvíla á eldhúsbekk í nokkra klukkutíma. Sumum finnst þeir kynnast kjötinu betur þannig og eldamennskan verður vinalegri.

Takið bestu pönnuna ykkar og setjið á frekar háan hita og bræðið svolítið af smjöri. Saltið og piprið skankana og brúnið vel, kannski svona 2 – 3 mínútur á hverri hlið, líka mikilvægt að loka breiðari endanum á skankanum. Takið skanka af pönnu og setjið til hliðar í eldfast mót.

Skellið lauk og hvítlauk á pönnuna, ekki þvo hana á milli því safinn sem er þar eftir kjötið er geggjaður. Steikið í 3 – 4 mínútur og skellið svo gulrótunum út á og lækkið hitann niður í miðlungshita. Látið malla í nokkrar mínútur, bætið rósmarin og kryddum út í, bætið hvítvíni/rauðvíni og appelsínusafa við og lækkið hitann niður í 1 – 2. Rífið börk af appelsínu og sítrónu yfir og passið að fara ekki of djúpt þannig að of mikið af þessu hvíta komi með. Það eru til sérstök barkarrifjárn sem henta í þetta og allir ættu að eiga í sínu vopnabúri. Setjið lok yfir og látið malla í 10 mínútur.

Næst er að taka pönnuna og hella yfir skankana í eldfasta mótinu, setjið álpappír yfir og hendið inn í ofn. Hitinn á ofninum er 150 gráður til að byrja með t.d. 2 klst og svo aðeins lægri t.d. 120 fyrir restina. Nautnabelg finnst best að elda þetta í a.m.k. 6 tíma en hér er ekki þörf á nákvæmni því allt milli 4 og 24 tímar er fínt. Í lokin eru skankarnir teknir frá og safinn sem er í eldfastamótinu soðinn niður um a.m.k. helming áður en rétturinn er fram borinn. Best er að bera fram í eldfastamótinu, skankarnir settir þangað aftur og gumsinu hellt yfir. Það er ekki verra að klippa ferskar kryddjurtir yfir t.d. flatblaða steinselju eða kóríander.

Byrja þarf að huga að búlgurinu svona 45 mínútum áður en borðhald hefst. Það er soðið samkvæmt leiðbeiningum og því leyft að kólna aðeins áður en það er borið fram. Vorlaukur, paprika og mynta eða kóríander er saxað niður frekar fínt og sett í skál ásamt granateplafræjum, olívuólíu og smá sítrónusafa, búlgur hellt yfir og öllu blandað saman þannig að litirnir njóti sín, smá kóríander eða mynta yfir og þá er meðlætið tilbúið.

Grískri jógúrt er hrært saman við sítónusafa og myntu og þá er sósan tilbúin, best að gera þetta klukkutíma fyrir mat og geyma í ísskáp.

Svo er bara að skammta búlgúr á diska, setja skanka yfir og skipta safanum og grænmetinu bróðurlega á milli. Búlgúrið dregur í sér safann og sman verður þetta dásamleg bragðsprengja sem nýtur sín best með nokkuð öflugu frönsku eða portúgölsku rauðvíni.

Hráefni

Við miðum við einn skanka á mann, þeir geta verið misstórir og þá fær bara sá sem er svangastur stærsta bitann. Þessi uppskrift miðast við 4 en ef þið eruð fleiri eða færri þá er bara að aðlaga magn og krydd, bara nota reiknivél ef þið eruð óviss.

Lambaskankar

4 lambaskankar
2 laukar að eigin vali
2 – 3 gulrætur
Rósmarin
4 hvítlauksrif
Salt
Pipar
Kardimommur
Kóríanderfræ
Cummin
Kanilstöng
Ungversk paprika
Einn bolli soð t.d. grænmetis eða lamba
Slumpur af hvítvíni eða rauðvíni
Safi úr hálfri appelsínu
Rifinn börkur af einni appelsínu
Rifinn börkur af einni sítrónu

Búlgur

Búlgur – mjög gott búlgur fæst t.d. í Istanbul Market á Grensásvegi
4 Vorlaukar
1 Rauð paprika
Fersk mynta og/eða kóríander
Olivuolía
Handfylli af Granateplafræjum (þetta er umdeilt meðal okkar hjóna)

Sósa

Grísk jógúrt
Sítrónusafi
Fersk mynta