- Lífið er of stutt fyrir vondan mat

Sítrónubakan hennar Agnesar

Sítrónubakan hennar Agnesar

 Vorið er gult, vorið eru fíflar, vorið er sítrónubaka og sítrónubakan minnir á Amalfi ströndina og veturinn er gleymdur og myrkrið svona fjarlæg minning og nóttin er ung. Næturfjólur breytast í morgunfrúr.

Þetta er sítrónubakan hennar Agnesar vinkonu sem er snillingur í kökubakstri. Botninn kemur úr smiðju pabba hennar sem var þýskur og Agnes sagði mér að hann væri úr einhverri gamalli þykkri þýskri matreiðslubók. Fyllinguna kokkaði Rósa vinkona hennar upp. Það hafa því margir lagst á eitt eins og oft er þegar góðir hlutir gerast. Auðvitað gat svo Nautnabelgur ekki annað en breytt uppskriftinni aðeins.

Eftir að hafa bakað þessa böku árum saman í  ýmiss konar útgáfum þá er Nautnabelg ljóst að hún er betri þegar spelthveiti er notað en eins og með margt þá er það smagsag eins og sagt er í fínum boðum. Stundum hefur verið notað agavesíróp eða hlynsíróp í stað sykurs og það er alveg eins gott ef ekki betra. Til tilbreytingar þá er hægt að setja smá rifna vanillu í fyllinguna en það þarf alls ekki. Notið svo endilega lífrænar sítrónur sem fást í Græna hlekknum, í Krónunni og í Yggdrasil og kannski á fleiri stöðum. Þær geymast ekki lengi þannig að þið skuluð passa að nota þær fljótlega eftir að þið kaupið þær.

 Upphaflega uppskriftin fannst okkur vera aðeins of stór fyrir eina böku en of lítil fyrir tvær þannig að við breyttum hlutföllunum. Þessi uppskrift er fyrir tvær bökur en ef þið viljið bara gera eina þá er einfalt að helminga hana. Kannski flókið með eitt egg en ég hef bæði sleppt því og sett nokkrar matskeiðar af ísköldu vatni í staðinn eða bara hreinlega sett eitt egg þrátt fyrir að hún væri helminguð.

Deig:

400 gr. fínt spelthveiti
250 gr. smjör
100 gr. sykur
1 egg

Fylling:

3 egg
180 gr. sykur eða agavesíróp og þá 1 dl.
Safi úr tveimur lífrænum sítrónum
Ysti börkurinn af einni lífrænni sítrónu
Örþunnar sítrónusneiðar ofaná

Þegar deigið er búið til þá er allt sem í því á að vera hnoðað saman. Nautnabelgur setur það gjarnan inn í ísskáp í smá tíma því þá verður það meðfærilegra. Það er svo hreinlega flatt úr á borði eða á bretti og pínulítið hveiti haft við höndina til að bera á kökukeflið eða vínflöskuna skyldi kökukeflið vanta. Var í matarboði um daginn og þar var umræðuefnið hvað það væri sem ÞYRFTI að vera til í eldhúsi, skemmtileg pæling. Pottar og hnífar var svona það sem helst kom upp í hugann og ég veit að ég gæti verið án eins uppáhaldstækisins í eldhúsinu sem er lítið járn til að rífa ysta börkinn af sítrusávöxtum en ég mun samt aldrei viðurkenna það. Nautnabelgur hefur einnig sannreynt að ísvélar eru ekki bráðnauðsynlegar, en samt. Já það er svo líka gott að setja bökuformið inn í frysti en ef þið eigið hann ekki þá er hægt að vera án þess. Hann er sumsé ekki nauðsynlegur í eldhúsi.

Það er mikilvægt þegar deigið er sett í formið að það sé ekki neitt gat á deiginu því ef það gerist þá lekur fyllingin úr sem er sko alls ekki gott mál. Ef ég er ekki alveg örugg með formið þá set ég álpappír utan um það svona eins konar vara form. Ofninn er stilltur á 175.

 Allt sem er í fyllingunni er hrært vel saman og sett í deigið sem hefur komið sér vel fyrir í forminu þegar hér er komið sögu. Skornu sítrónusneiðunum er raðað ofaná. Bakað við 175 í u.þ.b. 40 mínútur. Bakan er best þegar hún er aðeins brúnleit á köflum.

 Njótið, hún er bæði góð heit og köld. Með henni þarf ekkert en grísk jógúrt eða AB mjólk sem er búið að láta renna af í kaffibréfi svona eins og er notað í uppáhelling er fínt með. Þá er kaffibréfið sett í trekkt og hún í bolla á meðan verið er að baka og volá tilbúið.

 Sumarið er sítróna.