- Lífið er of stutt fyrir vondan mat

Kartöfluklattar með silungi

Kartöfluklattar með silungi

Þetta er frábær forréttur fyrir heimilisfólk og gesti sem á uppruna sinn í eldhúsi Gyðinga. Eins og gengur og gerist hjá áhugafólki um mat þá hafa verið gerðar alls konar tilraunir með hann. Setja lauk í „lummurnar“, kúrbít, púrru, rauðbeður en allt kemur fyrir ekki, Nautnabelg finnst þetta bara best sem allra einfaldast og það er svona:

Það sem þarf í réttinn:

Kartöflur

AB mjólk (fullur kaffifílter dugar fyrir 6)

Reyktan silung (lax ef þið þurfið að losna við hann úr frystinum) 2-3 vænar sneiðar á mann

Graslauk

Svartan pipar

Sítrónusafa

Olíu og pínu smjör með til steikingar

(Salt ef vill en silungurinn er saltur)

 

Áður en þið gerið nokkuð annað er rétt að taka AB mjólkina og láta renna af henni í gegnum kaffifílter. Það er ágætt ef þið eruð með fyrirhyggju að láta renna af í svona einn til tvo tíma. Nautnabelgur á alveg sérstaka trekt fyrir þetta til að fá ekki kaffibragð í AB mjólkina og ekki AB mjólkurbragð í kaffið. Kaffifílterinn í trektina og trektin ofan í bolla. Ef þið eigið ekki auka trekt þá er líka hægt að festa kaffifílterinn með tveimur klemmum við bolla og láta renna af þannig svo er líka hægt að nota klút og teygju og svo eru örugglega til einhverjar aðferðir sem okkur hefur ekki einu sinni dottið í hug.

Veljið eins góðar kartöflur og völ er á og rífið þær niður með rifjárni á þessu grófa. Ein góð lófafylli af rifnum kartöflum á hvern og einn. Safinn er kreistur úr kartöflunum og það er hægt að gera það í hreinum klút eða það sem er einfaldast að taka rifrildið í lófann og kreista. Þægilegast er svo að búa til litlar klatta eða lummur úr þessu og setja á disk, jafnmargar og gestirnir eru. Silungurinn er skorinn niður í fínlegar sneiðrar. Því næst eru klattarnir steiktir og við gerum það í blöndu af olíu og smjöri. Stundum, sérstaklega á veturna og snemma sumars þá virðist þetta ekki ætla að hanga saman en það er bara að setja klattana á pönnuna og vera með spaða og slá ofan á svona til að þétta klattana og þetta gengur alltaf upp. Svo er líka mikilvægt að hafa í huga að lúkkið er ekki endilaga málið heldur bragðið.

Steikt þar til ljósbrúnt undir og svo snúið við og þegar klattarnir eru orðnir ljósbrúnir báðum megin þá eru þeir settir inn í ofn. Okkur finnst þægilegast að steikja allt og setja svo inn í ofn á smjörpappír í svona 5-10 mínútur á 170 gráður en þar sem allir ofnar eru ólíkir þarf bara að fylgjast með.

Tekið út, sett á diska, doppa af AB mjólk yfir og svo silungurinn yfir hana. Nokkrir dropar af sítrónusafa yfir allt saman, klipptur graslaukur yfir, og svo svartur pipar í lokin og þið getið borið fram dásamlega fallegan og góðan rétt. Okkur finnst rétt að geta þess að börn elska þennan rétt.